Laufabrauð
Ætti að skila ca, 28-32 kökum.
Áhöld:
- Kleinuhjól
- Laufabrauðsjárn
- Kökukefli
- Nóg af hvítum eldhúspappír
- 500 g hveiti
- 35 g smjörlíki
- 15 g (1 msk) sykur
- 1 tsk lyftiduft
- ½ tsk salt
- 2 ½ dl mjólk (má hafa meiri mjólk)
- ca 1-2 kg jurtafeiti til steikingar
Mjólkin á að vera snarpheit. Allt hnoðað saman. Deiginu rúllað upp og skipt í jafna hluta. Passa að láta deigið ekki þorna og hafa það alltaf undir rökum klút. Kökur sem búið er að fletja út þarf að hafa undir rökum klút þar til þær eru steiktar. Kökurnar eru flattar út þar til þær eru mjög þunnar (hægt að lesa fyrirsagnir í dagblöðum í gegn). Kökurnar eiga að vera ca 18-19 cm í þvermál. Diskur lagður yfir og kleinuhjól notað til að skera út kökurnar. Munstur skorið í kökurnar með laufabrauðsjárni og kökurnar gataðar með gaffli. Jurtafeiti hituð í stórum potti við háan hita. Þegar búið er að skera allar kökurnar eru þær steiktar í feitinni á báðum hliðum en passa að snúa fyrst þeirri hlið, sem snéri upp þegar kakan var skorin, niður í steikingunni því þá er minni hætta á að munstrið skemmist. Þegar búið er að steikja kökuna er hún sett á eldhúspappír og pressuð saman til að slétta hana og ná úr henni sem mest af feitinni. Þetta verður að gera um leið og kakan kemur úr feitinni því annars brotnar hún. Ath að nota ekki munstraðan eldhúspappír því liturinn í honum getur farið í kökurnar.