Indverskur karrýkjúklingur
Þessi uppskrift er frekar mild. Ef fólk vill hafa þetta sterkara má setja meira chili eða bara chili duft.
- ca 400-600 g af kjúklingabringum eða úrbeinuð læri (skinnlaus) skorið í strimla eða litla bita
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 3 meðalstórir laukar skornir
- 4 hvítlauksrif (pressuð)
- 1 msk (ca) ferskur engifer saxaður smátt (Líka hægt að fá þetta í krukku)
- 1 heill grænn chillipipar með öllu
- 1 dós kókosmjólk (ekki hrista dósina)
- 2 tsk malað kúmin (cumin/cummin/broddkúmen) (ath EKKI kúmen)
- 1 tsk turmeric
- 2 tsk möluð kóríanderfræ
- 1-2 kardimommur malaðar fínt
- 2 tsk Garam Masala (tilbúin kryddblanda frá t.d. Rajah)
- Salt
- Fersk kóríanderlauf til skreytingar
- Örlítið af smjöri/smjörlíki
Það er eiginlega alveg nauðsynlegt að bera þennan rétt fram með naanbrauði (önnur uppskrift) og Raitasósu.
Steikja laukinn við meðalhita á pönnu þar til hann er orðinn dökkbrúnn. Þetta tekur dálítinn tíma en er mjög mikilvægt. Laukurinn á ekki að brenna heldur að verða sætur á bragðið.
Þegar laukurinn er tilbúin er hvítlauknum og engifernum bætt út í pönnuna og hrært saman við. Þá er tómötunum og öllum kryddunum nema Garam masala bætt út í látið malla aðeins. Kjúklingnum bætt í blönduna og loka pönnunni. Látið malla þar til kjúklingurinn er soðinn í gegn. Þá er rjómanum af kóksmjólkinni bætt út í þ.e. þetta þykka sem situr eftst í dósinni og Garam masala.
Smakkað til með salti og Garam masala.
Ekki elda þetta nema örstutt eftir að búið er að setja Garam masala út í þar sem það missir annars bragð.
Rétt áður en þetta er borið fram er 2-3 litlir smjörtengingar látnir út í pönnuna og Kóríanderlaufum stráð yfir.
Borið fram með soðnum hrísgrjónum, naan og raitu og etv Mango Chutney.