Brownie með saltri karamellu og pekanhnetum
Ég hef notað þessa uppskrift til að búa til browniebita í fermingarveislur krakkanna. Baka slatta sker í bita og frysti. Þessi kaka passar í ferkantað form uþb 20x30cm og gerir þá 40 bita.
Kakan
- 150 g suðusúkkulaði
- 110 g smjör
- 4 stór egg
- 4 dl sykur
- 2 1/4 dl hveiti
- 3/4 tsk salt
Karamella
- 100 g smjör
- 1 1/2 dl púðursykur
- 1/2 tsk salt
- 3 msk rjómi
- 1 1/4 bolli pekanhnetur gróft saxaðar
Aðferð
Súkkulaði og smjör brætt saman yfir vatnsbaði og svo látið kólna. Á meðan eru egg og sykur þeytt saman í hrærivél þar til orðið létt og ljóst. Hveiti og salti blandað saman og svo blandað varlega saman við eggin og sykurinn. Í lokin er súkkulaðismjörin blandað varlega saman við. Formið smurt en gott að setja bökunarpappír í botninn. Deiginu hellt í formið og kakan bökuð við 180C í 15-17 mín. Á meðan er karamellan búin til.
Smjör, púðursykur og salt sett í pott og brætt saman þar til karamella fer að myndast, hrært vel í og passa að brenna ekki. Þá er rjómanum blandað saman við. Þegar kakan er búin að vera 15-17 mín í ofninun er hún tekin út. Hnetunum dreift yfir og karamellunni hellt yfir og kakan bökuð áfram í 15 mínútur.