Sara Bernharðs kökur

Úr Uppskriftavefurinn
Stökkva á: flakk, leita

Varúð, þessi uppskrift hefur mjög háan vesensfaktor.

Botn

  • 260 g möndlur
  • 230 g flórsykur
  • 4 eggjahvítur

Krem

  • 120 g sykur
  • 1 dl vatn
  • 4 eggjarauður
  • 1.5 msk kakó
  • 0.25 tsk neskaffi
  • 260 g mjúkt smjör
  • suðusúkkulaði

Möndlur mixaðar vel. Eggjahvítur stífþeyttar. Flórsykur sigtaður og blandaður saman við möndlurnar og svo blandað varlega saman við eggjahvíturnar. Sett á plötu með teskeið (passa að hafa þær frekar litlar) og bakað við 180°C í 11-13 mínútur. Látið botnana svo kólna.

Eggjarauður þeyttar vel. Sykur og vatn sett í pott og soðið þar til fer að þykkna/freyða (sjá athugasemdir). Sykurleginum hellt saman við eggjarauðurnar og þeytt í eina mínútu. Látið kólna aðeins. Smjör hrært út í, neskaffið mulið með skeið og blandað út í ásamt kakói með sleikju. Passa að hafa enga kekki. Smyrja kreminu á kalda botnana.

Suðusúkkulaði brætt í vatnsbaði og látið kólna. Kökunum svo dýft ofan súkkulaðið krem megin þar til einungis botnin stendur upp úr. Þetta er frekar vandasamt, ef súkkulaðið er of heitt vill það hreinlega leka af kökunum, en ef það er of kalt á kremið það til að sitja eftir við hjúpun (ef maður dýfir kökunni í).

Athugasemdir

  • Fara þarf varlega með sykurvatnið að það kristallist ekki og verði að brjóstsykur. Margar uppskriftir nota sýróp í staðin, sem er kannski ekki afleit hugmynd.
  • Einnig er vandasamt og tímafrekt að hjúpa þær.
  • Það leikur ákveðinn grunur á að hlutfallið milli botna og krems í uppskriftinni verði til að það verði tölvuert magn af kremlausum botnum í afgang.

Fleiri uppskriftir